Það voru ánægð en hógvær eldri hjón sem heimsóttu starfsmenn Íslenskrar getspár í dag með vinningsmiða upp á rúmlega 107 milljónir króna. Hjónin spila reglulega í lottóinu og víkingalottóinu ásamt 5 börnum sínum.
Segir í tilkynningu frá Íslenskri getspá að hjónin hafi fylgst með drættinum í sjónvarpinu á miðvikudaginn og skrifuðu niður 5 tölur. Voru þau mjög ánægð með að vera með 5 tölur réttar og vinna sér inn 16.500 krónur það kæmi sér jú vel fyrir jólin. Þau urðu svo heldur betur hissa þegar þau skoðuðu úrslitin á textavarpinu og tóku eftir tölunni 19 sem þau höfðu gleymt að skrifa niður og í ljós kom að þau höfðu unnið sér inn rúmlega 107 milljónir en ekki bara 16.500 sem þau höfðu þó verið mjög glöð með, að því er segir í tilkynningu.
„Hjónin voru ánægð með að þar sem fjölskyldan spilar alltaf saman var búið að ákveða fyrirfram hvernig vinningnum yrði skipt niður og því skiptist þessi stærsti vinningur til þessa á milli sex fjölskyldna sem kemur sér svo sannarlega vel.
Hjónin sem bæði eru hætt að vinna ætla ekki að láta vinninginn breyta miklu í sínu lífi en þetta kemur sér auðvitað mjög vel í viðbót við ellilífeyrinn og kemur til með að nýtast vel á næstu árum," að því er segir í tilkynningu.