Íslendingar enn svartsýnir

Íslendingar eru enn afar svartsýnir á ástand efnahagsmála á næstu …
Íslendingar eru enn afar svartsýnir á ástand efnahagsmála á næstu mánuðum. mbl.is/Ómar

Íslendingar eru almennt enn svartsýnir á efnahagsástandið á næstunni þótt þeim sé hægt og hægt að aukast bjartsýni. Þetta kemur fram í nýrri alþjóðlegri könnun um áhrif fjármálakreppunnar á almenning í 24 löndum.

Það eru alþjóðleg samtök óháðra markaðsrannsóknarfyrirtækja (WIN) sem standa fyrir könnuninni en sambærilegar kannanir hafa verið gerðar á þriggja mánaða fresti síðan fjármálakreppan skall á.  Capacent Gallup sér um framkvæmd könnunarinnar hér á landi. 

Um er að ræða fjórðu könnunina frá upphafi fjármálakreppunnar og að sögn Capacent  er meginniðurstaðan á heimsvísu sú, að fólk er almennt bjartsýnna en í fyrri könnunum, sýnir minna aðhald í eyðslu og lítur framtíðina bjartari augum.

Íslendingar svartsýnastir

Í samanburði við önnur lönd eru Íslendingar almennt svartsýnir á ástandið en þó virðist bjartsýni Íslendinga vera að aukast hægt og bítandi.

Þegar löndin 24 eru borin saman á þremur meginþáttum lendir Ísland í neðsta sæti ásamt fimm öðrum löndum; Argentínu, Búlgaríu, Frakklandi, Mexíkó og Rúmeníu. Í þessum löndum er fólk svartsýnast á þróun efnahagsmála, hefur dregið mest saman í eyðslu og upplifir sálfræðileg áhrif kreppunnar í meira mæli en íbúar annarra landa. Með sálfræðilegum áhrifum er m.a. átt við þunglyndi, kvíða og streitu.

Þegar spurt er um þróun efnahagsmála á næstu þremur mánuðum á heimsvísu kemur fram talsvert meiri bjartsýni en í fyrri könnunum. Af þeim þjóðum sem spurðar voru er svartsýni á efnahagshorfur mest á Íslandi og í Rúmeníu, en 59% þátttakenda þar telja að efnahagsástand muni versna á næstu 3 mánuðum og aðeins 7% telja að það muni batna.

Heldur hefur þó dregið úr svartsýni Íslendinga frá því í júlí þegar 71% Íslendinga töldu að ástandið myndi versna á næstu 3 mánuðum.

Mikill samdráttur í útgjöldum

Alþjóðlega hefur trú þjóða á getu ríkisstjórna sinna til að ná tökum á efnahagsmálum aukist.  Á meðal  Íslendinga er trú á ríkisstjórninni óbreytt frá síðustu könnun sem var gerð í júlí. Þrjú lönd hafa minni trú á ríkisstjórn sinni en Íslendingar. Þetta eru Rúmenía, Bretland og Spánn.

Útgjöld í öllum neysluflokkum halda áfram að dragast saman meðal allra þjóða, en almennt minna nú en áður. Hjá Íslendingum er samdrátturinn þó óbreyttur frá síðustu könnun, og er mestur allra þjóða fyrir utan Mexíkó.

Fjármálakreppan hefur sálræn áhrif

Efnahagsástandið hefur haft umtalsverð áhrif á sálrænt ástand allra þjóðanna. Að meðaltali segjast 38-39% svarenda hafa upplifað streitu eða kvíða sem beina afleiðingu af efnahagsástandinu. Meðal Íslendinga eru þessi hlutföll 43 og 48%.

Þegar spurt er um svefn segjast að meðaltali 26% hafa átt í erfiðleikum með svefn vegna efnahagsástandsins. Þar eru Íslendingar undir meðaltalinu. Hins vegar er hlutfall þeirra, sem segjast hafa upplifað þunglyndi af völdum efnahagsástandsins, áberandi hæst hér á landi, eða 42% en meðaltalið er 17%.

Íslendingar skera sig úr öðrum Vestur-Evrópuþjóðum varðandi það að 61% þeirra hefur upplifað einhver neikvæð sálræn áhrif í kjölfar kreppunnar en þetta hlutfall er lægra meðal annarra Vestur-Evrópuþjóða. 

Könnunin var gerð meðal 23.659 manns í 24 löndum frá miðjum september til loka október af óháðum markaðsrannsóknarfyrirtækjum í hverju landi Hér á landi var gerð netkönnun dagana 30. september til 7. október og var úrtakið 1200 manns af öllu landinu, 16 ára og eldri. Svarhlutfall var 65%.

Auk Íslands var könnunin gerð í Argentínu, Ástralíu, Austurríki, Brasilíu, Búlgaríu, Kanada, Kína, Frakklandi, Indlandi, Ítalíu, Japan, Kóreu, Kúveit, Mexíkó, Hollandi, Rúmeníu, Rússlandi, Sádí -Arabíu, Spáni, Sviss, Bandaríkjunum, Bretlandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert