Jóhanna ósammála Josefsson

Mats Josefsson.
Mats Josefsson.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að hún væri ósammála því mati Mats Josefsson, efnahagsráðgjafa íslenskra stjórnvalda, um að endurreisn bankakerfisins hefði gengið allt of hægt.

Josefsson lét þessi ummæli falla á ráðstefnu í Reykjavík í vikunni. Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Jóhönnu hvað hún ætlaði að gera til að hraða þessari vinnu.

Jóhanna sagði, að í flestum tilvikum hefði verið farið að ráðum Josefssons í þessu starfi. Hún vísaði einnig til ummæla Mark Flanagan, fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem hafi sagt að það sé mikið afrek og án fordæma, að tekist hafi að fjármagna bankana á rúmu ári.  Slíkt mat væri nær lagi en það sem Josefsson lýsti.

Birkir Jón sagði ljóst að Jóhanna bæri ekki lengur traust til ráðgjafa síns. Það væru sinnaskipti því Josefsson hefði verið í hávegum hafður fyrir skömmu en þegar hann gagnrýndi íslensk stjórnvöld kæmi annað hljóð í strokkinn. Vísaði Birkir Jón til þess, að Josefsson hefði sagt að um lélega verkstjórn væri að ræða í íslenska stjórnkerfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka