Laun embættismanna, sem falla undir úrskurðarvald kjararáðs, verða fryst út næsta ár samkvæmt frumvarpi, sem fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi. Kjararáð má þó lækka laun embættismanna annarra en forseta Íslands.
Í greinargerð með frumvarpinu segir, að meginmarkmið þess sé að draga úr útgjöldum ríkissjóðs á árinu 2010 til að mæta stórfelldum tekjusamdrætti ríkissjóðs vegna efnahagskreppunnar.
Verður samkvæmt frumvarpinu óheimilt til loka næsta árs að endurskoða til hækkunar úrskurði kjararáðs sem kveðnir voru upp á þessu ári, þar á meðal um launalækkanir alþingismanna, ráðherra og annarra sem heyra undir úrskurðarvald kjararáðs.
Fram kemur að kjarasamningar verði almennt lausir 30. nóvember 2010. Ekki sé ljóst hvernig aðstæður þróast og því sé ekki gert ráð fyrir að binda kjararáð lengur en til ársloka 2010. Þá geti ráðið að nýju fellt úrskurð um þá sem heyra undir úrskurðarvald þess að teknu tilliti til kjara hjá viðmiðunarhópum eins og þau verða á þeim tíma.
Kjararáð má hins vegar endurskoða úrskurðina til lækkunar, til dæmis ef í ljós kemur að viðmiðunarhópar hafi lækkað enn meira en sem nemur úrskurðum ráðsins. Það nær þó ekki til forseta Íslands vegna þess að óheimilt skuli að lækka greiðslur af ríkisfé til forseta á kjörtímabili hans samkvæmt stjórnarskrá.
Samkvæmt lögum, sem sett voru í desember á síðasta ári var kjararáði gert að kveða upp nýjan úrskurð um 5–15% lækkun launakjara alþingismanna og ráðherra fyrir árslok 2008 og að úrskurðurinn taki gildi frá 1. janúar 2009. Óheimilt var að endurskoða úrskurðinn til hækkunar á árinu 2009. Með frumvarpinu nú er verið að framlengja þá frystingu.