Mbl.is skorar á Skjánum

Þeim fjölgar stöðugt sem horfa á fréttir mbl.is á Skjá einum samkvæmt nýjum rafrænum áhorfsmælingum Capacent. Fyrsti fréttatíminn fór í loftið 15. október og hefur frá þeim tíma komist vel á kortið.

Þannig voru fréttir mbl.is á Skjá einum sá fréttatími sem flestir í aldurshópnum 12 til 49 ára horfðu á fimmtudaginn 29. október, eða alls 19,4%. Á fréttir Stöðvar 2 horfðu 17,7% og 16,8% á fréttir Sjónvarpsins.

Rétt er að taka fram að hér er miðað við uppsafnað áhorf en fréttir mbl.is eru sýndar kl. 18:50 og endursýndar kl. 21:50 auk þess sem hægt er að horfa á þær á netinu. Aðra daga eru hlutföllin nokkuð önnur en þróunin er almennt sú að fréttir mbl.is eru í sókn.

„Áhorfið endurspeglar styrkinn sem felst í samstarfi Skjás eins og Morgunblaðsins. Skjár einn verður áskriftarsjónvarp í næstu viku, í kjölfarið munum við endurskoða sýningartíma fréttanna með það að leiðarljósi að hámarka áhorfið og ávinning af samstarfinu. Það er gaman og gott að sjá nýjar leiðir skila árangri,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, sjónvarpsstjóri Skjás eins.

„Þetta er í samræmi við þau viðbrögð sem við fáum. Fréttir eiga ekki alltaf að vera með neikvæðum tón og við höfum lagt okkur fram um að varpa líka ljósi á það jákvæða,“ segir Hlynur Sigurðsson, fréttastjóri sjónvarpsfrétta mbl.is. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert