Undanfarna mánuði hefur ríkisskattstjóri haft mál til skoðunar sem varða söluréttar- og kaupréttasamninga. Það er skoðun embættisins að það hafi nokkuð vantað upp að rétt hafi verið staðið að slíkum málum hérlendis, þ.e. þau hafi ekki verið með þeim hætti líkt og kveðið er á um í skattalögum. Tugir einstaklinga eru til skoðunar og er um miklar fjárhæðir að ræða.
Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir í samtali við mbl.is að málið sé nú lokastigi.
Þetta snerti fjármálafyrirtæki jafnt sem önnur fyrirtæki í landinu. Ríkisskattstjóri hóf reyndar að skoða málið fyrir um tveimur árum. Það varð hins vegar að gera hlé á á málinu í um eitt ár á meðan beðið var eftir niðurstöðu yfirskattanefndar, sem staðfesti síðan framkvæmd ríkisskattstjóra um að ekki hafi verið rétt staðið að gerð slíkra samninga.
Fram kom í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að ríkisskattstjóri hafi sent stjórnendum Kaupþings og Glitni bréf um endurákvörðun opinberra gjalda vegna samninganna. Stjórnendurnir séu krafðir um þrjá milljarða kr. Ríkisskattstjóri vildi ekki staðfesta þetta. Aðeins að embættið sé nú að skoða söluréttar- og kaupréttarsamninga.