„Sammála um að vera ósammála“

Lilja Mósesdóttir.
Lilja Mósesdóttir.

„Við vorum sammála um að vera ósammála,“ segir Lilja Mósesdóttir, varaformaður efnahags- og skattanefndar Alþingis, varðandi það að Vinstri grænir og Samfylkingin skili sér nefndaráliti til fjárlaganefndar varðandi ríkisábyrgð á Icesave-reikningunum.

VG er ekki búið að semja sitt nefndarálit, en Lilja og Ögmundur Jónasson hafa frest fram á sunnudagskvöld til að ljúka gerð nefndarálitsins. „Við höfum áhyggjur af skuldsetningu ríkissjóðs, fyrst og fremst,“ segir hún.

Lilja tekur fram að það sé ekki hægt að breyta Icesave-samningnum. Það hafi verið skrifað undir hann áður en þingið fékk hann aftur til umfjöllunar. „Það var einmitt það sem Ögmundur vildi ekki. Hann vildi að hann færi ósamþykktur inn,“ segir Lilja.

Afstaða VG í nefndinni sé því sú að ekki sé ástæða til að halda málinu áfram hjá efnahags- og skattanefnd. 

Lilja kveðst ekkert geta tjáð sig um nefndarálit Samfylkingarinnar. Hún eigi eftir að sjá það. „Við gerðum ráð fyrir að þau yrðu mun jákvæðari heldur en við erum tilbúin að vera,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert