Karlmaður á þrítugsaldri var dæmdur í níutíu daga skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir kannabisræktun.
Gerði lögreglan upptæk 414,3 g af kannabislaufum, 204 kannabisplöntur, 53,03 g af kannabisstönglum, 13 hitalampa, 3 loftræstikassa, 206 blómapottar, eitt vatnskerfi til ræktunar og lásboga í húsnæði þar sem maðurinn rak kannabisræktunina við Bíldshöfða í Reykjavík.
Maðurinn játaði skýlaust brot sín. Sannað þótti með játningu hans og öðrum gögnum málsins að hann er sekur um þá háttsemi sem honum var gefið að sök. Samkvæmt sakavottorði mannsins var hann í tvígang dæmdur til að greiða sekt vegna fíkniefnalagabrots á árinu 2002. Eftir það hefur honum í tvígang verið gert að greiða sektir vegna umferðarlagabrota.