Tryggja þarf að leikskólakennarar fái haldgóða menntun í íslensku í kennaranámi
sínu þannig að þeir geti uppfyllt vel hið lögboðna markmið kennslu og uppeldis í
leikskólum að veita skipulega málörvun og stuðla að eðlilegri færni í íslensku. Jafnframt þarf að auka hlutfall íslenskukennslu í viðmiðunarstundaskrá fyrir grunnskóla þannig að hún verði ekki minni en móðurmálskennsla í nágrannalöndunum. Auk þess verður að tryggja að íslenska verði námsgrein í kjarna á öllum námsbrautum framhaldsskólans.
Þetta er meðal þess sem lagt er til í nýrri ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu 2009. Ályktunin verður kynnt formlega og rædd á málræktarþingi Íslenskrar málnefndar í hátíðasal Háskóla Íslands laugardaginn 14. nóvember og hefst þingið kl. 11.
Í ályktun Íslenskrar málnefndar er á það bent að háskólamenntun í íslensku þurfi að verði ríkur þáttur í menntun allra kennara. Þannig sé óviðunandi er að unnt sé að ljúka kennaraprófi án háskólamenntunar í íslensku. Að mati nefndarinnar ætti enginn að verða greinakennari í íslensku í grunnskóla nema hafa lagt sérstaka áherslu
á íslensku í kennaranámi sínu. Einnig þurfi að auka færni í kennslu íslensku sem annars máls með aukinni áherslu á þennan þátt í kennaranámi og einnig með framboði á símenntun fyrir starfandi kennara. Loks leggur nefndin til að allt notendaviðmót í tölvum í íslenskum skólum verði á íslensku innan þriggja
ára.
Í tilkynningu frá Guðrúnu Kvaran, formanni Íslenskrar málnefndar, kemur fram að samkvæmt lögum beri Íslenskri málnefnd að birta árlega ályktun um stöðu íslenskrar tungu. Það hafi hún gert tvisvar og gerir það nú í þriðja sinn.
Að þessu sinni snúi ályktunin að íslenskukennslu í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og íslenskunámi kennaranema. Með henni sé málnefndin að fylgja eftir einum þætti íslenskrar málstefnu sem Alþingi samþykkti sem tillögu til þingsályktunar 12. mars 2009. Málstefnan er prentuð í heftinu „Íslenska til alls“.