Ekki náðist endanleg niðurstaða í umræðum um skattatillögur ríkisstjórnarinnar á fundum þingflokka stjórnarflokkanna í gærkvöldi.
Enn er verið að reikna. Formenn flokkanna ræða málið og staðan verður metin á ríkisstjórnarfundi í dag. Ekki er vitað hvenær tillögurnar verða kynntar en umræða fer fram á Alþingi klukkan 11 um áform ríkisstjórnarinnar í skattamálum.
Ekki var fyllilega ljóst í gærkvöldi hvort full sátt væri um hugmyndir um þriggja þrepa tekjuskatt. Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, sagði að þingmenn VG teldu það mikilvægt að breyta skattkerfinu og þriggja þrepa tekjuskattur væri meira í anda stjórnarflokkanna en gamla kerfið sem ekki hefði reynst vel. „Það er ekki eina markmiðið að ná í tekjur, þótt það sé fyrsta markmið, heldur viljum við breyta skattkerfinu í leiðinni þannig að það færist ekki aftur til þess tíma þegar allt hrundi,“ segir hann.
Þrepin og tekjuskattsprósentur geta tekið breytingum frá því sem rætt hefur verið um. Björn Valur segir að reynt sé að færa neðsta þrepið upp til að hlífa þeim lægst launuðu en um leið að gæta þess að jaðaráhrif ofar í kerfinu verði ekki of þung fyrir tiltekna hópa.
Þá hefur komið til umræðu að fresta hluta af áformuðum hækkunum á virðisaukaskatti.