Fulltrúar stjórnarflokkanna í efnahags- og skattanefnd Alþingis eru klofnir í afstöðu sinni gagnvart ríkisábyrgð á Icesave-reikningunum. Málið var afgreitt úr nefndinni í dag og Vinstri grænir og Samfylkingin munu skila sitthvoru álitinu til fjárlaganefndar þingsins, sem enn er með frumvarpið til meðferðar. Þá vinnur stjórnarandstaðan í efnahags- og skattanefnd nú að gerð sér nefndarálits.
Helgi Hjörvar, formaður nefndarinnar og þingmaður Samfylkingarinnar, segir að fjárlaganefnd muni taka málið á ný fyrir á fundi sínum í byrjun næstu viku. Helgi vildi ekki tjá sig um það í hverju munurinn felist hjá flokkunum.
Ekki náðist í Lilju Mósesdóttur, varaformann efnahags- og skattanefndar, eða Ögmund Jónasson, samflokksmanns Lilju í VG.
Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Hreyfingin greiddu atkvæði gegn því að taka frumvarpið úr nefndinni. Stjórnarandstaðan telur að málið sé engan veginn fullreifað og fullrætt í nefndinni.
Stjórnarandstaðan hefur frest fram á sunnudagskvöld til að ljúka gerð sameiginlegs nefndarálits.