Fjölskyldur sem eiga meira en 150 milljónir eiga samtals 468 milljarða í framtaldar eignir. Það er 1.281 fjölskylda sem á þessar miklu eignir. Þetta eru 0,8% af öllum fjölskyldum í landinu, en hópurinn á 12,8% af öllum eignum. Þetta kemur fram í Tíund, fréttablaði ríkisskattstjóra, en greinina ritar Páll Kolbeins.
Niðurstaðan í grein Páls er að þó að margar fjölskyldur glími við fjárhagserfiðleika vegna þeirra áfalla sem dunið hafa yfir í efnahagslífinu gildi það alls ekki um alla. Margir séu langt frá því að vera á flæðiskeri staddir.
79.149 fjölskyldur telja ekki fram neinar skuldir, þar af eru 67.433 einhleypingar og 11.706 hjón. Eignir þessa hóps námu 845 milljörðum. Um 60% fjölskyldna skulda innan við fimm milljónir eða ekki neitt.
Þeir sem hafa keypt fasteignir á síðustu árum eru í sömu stöðu. Þessi hópur hefur ekki notið hækkunar á fasteignaverði, en skuldirnar hafa hækkað ár frá ári. Þeir sem eiga á bilinu 5 til 10 milljónir í fasteign skulda 80,1% af matsverði fasteignarinnar. Þetta hlutfall lækkar eftir því sem eignarhlutur í fasteigninni hækkar.
Í grein Páls í blaðinu Tíund kemur fram að stór hópur landsmanna greiði meira en þriðjung brúttótekna sinna í vexti og afborganir af lánum. Hér er um að ræða 9.232 einhleypinga og hjón en sumir þessara framteljenda, 225 hjón og 972 einhleypingar eða alls 1.197 heimili, töldu fram hærri vaxtagreiðslur en sem nam framtöldum brúttótekjum síðasta árs.
Flestar fjölskyldur töldu fram eignir sem metnar voru á bilinu frá 10 til 40 milljónir króna í árslok 2008 og af þessum hópi áttu flestar á bilinu 15 til 25 milljónir króna. Af 181.755 fjölskyldum í landinu greiddu 82.039 enga vexti á síðasta ári.
Frá 2000 til 2008 jukust skuldir einstaklinga úr 415 milljörðum í 1.683 milljarða. Þetta er fjórföldun skulda á átta árum. Skuldirnar jukust mest á síðasta ári eða um 24,9%. Á sama tíma jukust eignir aðeins um 8,2% þrátt fyrir að ýmislegt bendi til þess að þá hafi komið inn á skattframtöl mikið af bankainnistæðum sem áður voru vantaldar. Eignir einstaklinga hafa aukist mikið á síðustu árum og nema nú 3.657 milljörðum.
Hér er hægt að lesa Tíundina í heild