Logandi af áhuga

Þjóðfundarmenn að störfum í Laugardalshöllinni í dag.
Þjóðfundarmenn að störfum í Laugardalshöllinni í dag. mbl.is/ Kristinn

Þjóðfundinum í Laugardalshöll lauk síðdegis með því að nokkrir þjóðkunnir listamenn stigu á stokk á meðan unnið var úr gögnum frá starfshópunum. Forsvarsmenn fundarins telja að útkoman endurspegli vilja þjóðarinnar, eins og lagt var upp með.

„Leikurinn var gerður til að heyra rödd þjóðarinnar og við teljum að útkoman endurspegli hana,“ segir Lárus Ýmir Óskarsson, einn forsvarsmanna Þjóðfundarins, í tilkynningu frá aðstandendum fundarins.

Fyrir hádegi fjölluðu þjóðfundargestir um það hvaða gildi við Íslendingar ættum að hafa að leiðarljósi og varð heiðarleiki þar efstur á blaði. Þar á eftir kom jafnrétti, virðing og réttlæti.

Eftir hádegi var rætt um framtíðarsýn fyrir land okkar og samfélag og var unnið út frá nokkrum meginstoðum, sem fundurinn hafði valið, svo sem menntamálum, fjölskyldunni, atvinnulífinu, umhverfismálum og jafnfrétti. Útkoman og öll gögn eru nú aðgengileg til nánari úrvinnslu á:
http://www.thjodfundur2009.is/nidurstodur/framtidarsyn-themu/

Um fimmtán hundruð manns tóku þátt í fundinum. Unnið var í 162 hópum og var miðað við að níu manns væru í hverjum þeirra.

Lárus Ýmir segir að krafturinn, gleðin, einbeitingin og stemmningin á fundinum hafi verið gríðarleg. „Fólk var logandi af áhuga,“ segir hann.
Hugmyndin að Þjóðfundinum fæddist í byrjun júní og á sjálfum fundinum voru um 300 sjálfboðaliðar sem unnu við tæknivinnu, upplýsingamiðlun og fleira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert