Fréttaskýring: Þarf að endurgreiða hundruð milljóna

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Víst eru margir kátari en fjármálaráðherra með niðurstöðu Hæstaréttar í máli Leós Löve gegn íslenska ríkinu. Með dómnum er ríkið dæmt til að endurgreiða Leó um 730 þúsund krónur vegna ólöglegrar innheimtu stimpilgjalds af aðfarargerð í mars á síðasta ári. Allmargir eru í sömu sporum og Leó og gæti endurgreiðsla ríkisins numið allt að milljarði króna.

Krafa Leós var byggð á áliti umboðsmanns Alþingis frá 11. júlí 2008, þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé fyrir hendi lagaheimild til að krefjast stimpilgjalds af aðfarargerðum. Þrátt fyrir álitið neitaði fjármálaráðuneytið honum um endurgreiðslu þegar eftir því var leitað í lok nóvember 2008. Þremur vikum síðar var samþykkt lagabreyting á Alþingi þar sem öll tvímæli voru tekin af um lagaheimild til innheimtu stimpilgjalds af áðurnefndum fullnustugerðum.

 Kröfur fyrnast eftir fjögur ár

Efnahags- og skattanefnd skilaði nefndaráliti vegna lagabreytinganna í desember sl. Í því kom fram að tekjur af stimpilgjaldinu næmu um það bil 5% af heildartekjum af stimpilgjaldi á ári. Heildartekjurnar eru um 320 milljónir króna. Í lögum um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda er hins vegar ákvæði um að endurgreiðslur falli úr gildi fyrir fyrningu þegar fjögur ár eru liðin frá því að greiðsla átti sér stað.

Fleiri kröfur fyrnast á hverjum degi en þrátt fyrir það gæti ríkið þurft að endurgreiða hátt í milljarð króna. Indriði sagðist kannast við að tölur af slíkri stærðargráðu hefðu verið nefndar.

 Frumkvæði frá ráðuneyti?

Að mati Leós ætti fjármálaráðuneytið að hafa frumkvæði að endurgreiðslunni og senda bæði kröfuhafanum og þeim sem krafan var á bréf um endurgreiðsluna. Ólíklegt þykir þó að fjármálaráðuneyti hafi frumkvæði og kröfuhafar verði því að leggja fram kröfu til ráðuneytisins.

Lögmaður Leós, Ásgeir Jónsson, tekur jafnframt fram að honum þætti eðlilegt að fyrningarfrestur miðaðist við fjögur ár frá því að umboðsmaður Alþingis gaf út álit sitt. Enda hafi ríkið síðan þá reynt að sanna að álitið stæðist ekki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert