Þjóðin leggur áherslu á heiðarleika

Fjölmenni er nú statt á þjóðfundi.
Fjölmenni er nú statt á þjóðfundi. mbl.is/ Kristinn

Heiðarleiki er það gildi sem flestir þátttakendur á þjóðfundinum, sem nú fer fram í Laugardalshöll, leggja mesta áherslu á. Þar á eftir kemur jafnrétti, virðing og réttlæti. Því næst kærleikur, ábyrgð, frelsi, sjálfbærni og lýðræði. Fjölskyldan, jöfnuður og traust er einnig ofarlega á blaði.

Þetta er niðurstaða fyrstu vinnulotu þjóðfundarins sem hófst  í morgun. Nærri 1.500 manns, frá öllum landshornum taka þátt. Stemningin er gríðarlega góð og þátttakendur og starfsmenn einbeittir í því að skila góðri vinnu fyrir land og þjóð, að því er segir í tilkynningu.

Fundargestum er skipt í hópa og er unnið við 162 borð. Á hverju borði eru níu manns og var fyrsta verkefnið í morgun að komast að sameiginlegu gildismati.

Maríanna Friðjónsdóttir, „fjölmiðlamaur“ þjóðfundarins, segir fundarhöldin hafi gengið vel, en fundurinn hófst á tíunda tímanum í morgun.

Vinnan heldur áfram og er næstu niðurstaðna að vænta um tvö leytið í dag. 

„Fólk er að sinna þessu starfi fyrir þjóðina. Það tekur því virkilega alvarlega, að það sé í vinnu fyrir þjóðina og fyrir sjálft sig,“ segir hún í samtali við mbl.is. 

Fulltrúar á fundinum koma úr tveimur áttum, annars vegar úr 1.200 manna slembiúrtaki úr þjóðskrá. Úrtakið er þannig valið að því er ætlað að endurspegla þjóðina. Þar verður því jöfn skipting kynjanna, fólk á öllum aldri og alls staðar af landinu. Hins vegar hefur 300 fulltrúum félaga, samtaka og stofnana verið boðið að senda fulltrúa á fundinn.

Hægt er að fylgjast með fundinum hér.



Frá þjóðfundinum í Laugardalshöll.
Frá þjóðfundinum í Laugardalshöll. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka