Samtök móðurmálskennara og Skólaskrifstofa Hafnarfjarðar fengu afhentar viðurkenningar Íslenskrar málnefndar á málræktarþingi sem haldið var í hátíðarsal Háskóla Íslands í dag.
Íslenska í skólum var aðalefni þingsins og verðlaunahafarnir komu úr röðum skólafólks.
Samtök móðurmálskennara fengu viðurkenninguna fyrir langt og farsælt starf í þágu móðurmálskennslu. Þeir hafa meðal annars gefið út tímarit sitt, Skímu, í meira en þrjá áratugi með vönduðu efni fyrir kennara og aðra sem áhuga hafa á móðurmálskennslu. Kom fram hjá Guðrúnu Kvaran, prófessor og formanni Íslenskrar málnefndar, þegar hún afhenti verðlaunin að allt starf samtakanna væri þeim til mikils sóma.
Skólaskrifstofa Hafnarfjarðar fékk sína viðurkenningu fyrir að vera brautryðjandi í að setja upp íslenskan hugbúnað í öllum tölvum grunnskóla bæjarins. Hafnarfjörður er fyrsta sveitarfélagið sem nær því marki. Verkefnið var unnið fyrir meira en ári en nú nýverið gaf mennta- og menningarmálaráðuneytið út þá stefnu að unnið skuli að þessu verkefni í öllum grunn- og framhaldsskólum landsins á næstu þremur árum.