Fáein síldveiðiskip eru við leit og veiðar við Stykkishólm. Erfitt er að athafna sig þessa stundina þar sem töluverður vindur er og hann stendur á land. Háhyrningarnir láta vindinn ekki á sig fá, hrekja síldina upp undir sjúkrahúsið og háma hann þar í sig.
„Það er rólegt núna. Vindsperringur svo við höfum ekkert getað gert í morgun,“ segir Ægir Birgisson, skipstjóri á Ásgrími Halldórssyni sem ásamt tveimur öðrum skipum er að reyna síldveiðar uppi við landsteinana í Stykkishólmi. Faxi fékk raunar 150 tonn uppi í harða landi í morgun. „Við höfum verið að rúnta um og sjá hvar við höfum síldina. Veiðin hefur mest verið inni á Breiðasundi en lítið er að sjá þar núna. Hún hefur fært sig vestur fyrir Stykkishólm, virðist vera í Kiðeyjarsundi,“ segir Ægir.
Hann segir lítið hægt að eiga við veiðar af því síldin sé alveg uppi í landi, „eiginlega uppi í sveit“, og vindurinn standi beint upp á land.
Veiðin hefur verið ágæt hjá þeim fáu síldveiðibátum sem verið hafa að. „Það er skárra en ekkert“, segir Ægir þegar hann er spurður um 40 þúsund tonna síldarkvótann sem ráðherra gaf út. „Ég tel óhætt að gefa út meiri kvóta. Það hefur verið að veiðast síld við Vestmannaeyjar sem ekki hefur verið mæld. Það hefði verið sársaukalaust að gefa út 70 þúsund tonn,“ segir Ægir.
Síldarsýkingin er mest í innyflum fisksins, enn sem komið er, og telur Ægir mikilvægt að veiða sem mest áður en sýkingin fari út í holdið.
Aflinn er ýmist flakaður eða heilfrystur.