Lögreglan á Húsavík hafði afskipti af þremur rjúpnaskyttum á Öxarfjarðarheiði í gær. Þeir voru með ólögleg skotvopn eða án réttinda.
Lögreglumaður var í eftirlitsferð með þyrlu Landhelgisgæslunnar um vinsælt skotveiðisvæði á Öxarfjarðarheiði og nágrenni um miðjan dag. Lagt var hald á byssur mannanna og hafin rannsókn á málunum.
Kvartað hefur verið undan akstri utan vega á þessu svæði. Það var kannað sérstaklega en ekki urðu lögreglumenn varir við neitt af því taginu.
Lögreglumaður á Húsavík segir að eftirlit með þyrlu sé afar árangursríkt á svæðum þar sem erfitt er að komast um og hafa yfirsýn yfir og vonast til að framhald verði á því.