Það var fjölmennt á námskeiði sem haldið var á hárgreiðslustofunni Kompaníinu í Turninum í dag. Viðfangsefnið var óvenjulegt - nefnilega það að kenna feðrum að flétta dætrum sínum.
Það voru hárgreiðslumeistararnir Edda Björk Kristjánsdóttir og Daði Hendricusson sem héldu námskeiðið. Fjölmargir feður og afar mættu og voru ánægðir með afraksturinn, að því er fram kemur í tilkynningu.
„Þetta gekk rosalega vel. Það er á allra valdi að læra og flétta og greiða, og karlmenn eru þar engin undantekning á. Við kenndum nokkur grunnatriði svo sem að greiða hár, setja fléttur, fiskifléttur og fastar fléttur og setja í tagl. Það vilja allar stelpur vera með fínt hár og vel til haft. Hægt er að gera þetta á auðveldan og einfaldan hátt með réttum tækjum svo sem spennun, burstum, flækjuspreyi, klemmum og teygjum,“ er haft eftir Eddu Björk í tilkynningunni.