Guðmundur Franklín Jónsson, einn aðstandenda Þjóðarhags, félag hóps fjárfesta, sem vill gera Nýja Kaupþingi tilboð í Haga, segir að þegar hafi yfir tvö þúsund manns skráð sig á vefsíðuna thjodarhagur.is. Þetta kom fram í máli Guðmundar Franklíns í Silfri Egils.
Hann sagði að það væri kappsmál að tryggja að fleiri fái að koma að því að kaupa Haga ekki bara þeir sem ættu Haga. Ef þeir fá að eiga Haga áfram muni fákeppnin halda áfram hér á landi á matvörumarkaði. Hann segir þann misskilning ríkja á Íslandi að rekstur matvöruverslana sé einhver geimvísindi.
Guðmundur Franklín segist telja nóg búið að afskrifa af skuldum þessa manna. Tími sé kominn til að þeir greiði skuldir sínar líkt og almenningur í þessu landi þarf að gera.
Hann segir að 1998 skuldi 50 milljarða króna og það sé ekki sanngjarnt gagnvart öðrum kaupmönnum hér sem greiða skuldir sínar að eigendur Haga fái allt afskrifað gegn því að koma með útlendinga inn sem leggja sjö milljarða króna til félagsins.
Guðmundur Franklín skoraði á Jóhannes Jónsson, einn eiganda Haga, að mæta í Silfur Egils eftir viku og ræða matvörumarkaðinn. Lagði Guðmundur Franklín til að Jóni Gerald Sullenberger yrði einnig boðið að koma í þáttinn.