Einar Skúlason varaþingmaður hefur tilkynnt framboð í 1. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins vegna borgarstjórnarkosninganna 2010. Hann hefur af því tilefni sagt lausri stöðu sinni sem skrifstofustjóri þingflokks framsóknarmanna. Óskar Bergsson er oddviti flokksins í borginni.
Einar er 38 ára Reykvíkingur og þriggja barna faðir og hefur alið mestalla sína tíð í borginni.
Hann er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Háskólanum í Edinborg.
Á háskólaárunum var hann virkur í stúdentapólitíkinni, sat í stúdentaráði fyrir Röskvu og gegndi starfi framkvæmdastjóra Stúdentaráðs árin 1996-1997. Hann starfaði í tæp sex ár sem framkvæmdastjóri Alþjóðahússins og réðst um síðustu áramót til starfa sem skrifstofustjóri þingflokks framsóknarmanna, en því starfi hefur Einar nú sagt lausu samhliða tilkynningu um framboð.
Einar hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn, sat m.a. í framkvæmdastjórn Sambands ungra framsóknarmanna árin 1996-2002, þar af síðustu þrjú árin sem formaður. Þá hefur hann átt sæti í landsstjórn flokksins og situr nú í miðstjórn. Hann er jafnframt varaþingmaður fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður.
Í tilkynningu um framboðið kemur fram að Einar leggur áherslu á uppbyggingu umhverfisvænnar og öruggrar borgar sem skapar góða umgjörð um íbúana. Hann vill leggja sérstaka áherslu á málefni barna og unglinga og tryggja eftir megni að þau eða aðrir viðkvæmir hópar samfélagsins þurfi ekki að axla byrðar vegna erfiðra aðstæðna. Þá telur hann mikilvægt að halda áfram að byggja upp virkt samráð við íbúa um stærri ákvarðanir, þar sem gagnsæi, upplýsingamiðlun og heiðarleg vinnubrögð eru höfð að leiðarljósi.
Hann telur mikilvægt að skapa góða umgjörð um atvinnulífið og hvetja til nýsköpunar fólks og fyrirtækja í borginni. Mannauðurinn sé til staðar og gríðarleg tækifæri fólgin í honum.
Einar mun nýta næstu tvær vikur til þess að kynna betur stefnumál sín fyrir framsóknarmönnum í Reykjavík en valið verður á lista flokksins á kjörfundi þann 28. nóvember.
Nánari upplýsingar um aðferðina við val á efstu mönnum listans má finna hér.