Segir vel hægt að spara meira

Sigmundur Ernir Rúnarsson
Sigmundur Ernir Rúnarsson mbl.is/Ómar

Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir vel hægt að spara meira í ríkisrekstrinum. Þetta kom fram í máli þingmannsins í Silfri Egils. Segir hann mikilvægt að koma hjólum atvinnulífsins af stað á ný. Segir hann að við lestur á fjárlagafrumvarpinu komi í ljós alls konar óþarfa kostnaður.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í þættinum að ríkisstjórnin ætti að hætta við fyrirhugaðar skattahækkanir og í þess stað ætti að skattleggja séreignasparnað strax.

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, sagði að mikill usli hafi orðið til í kringum óstaðfestar tillögur. 

Bjarni sagðist aðspurður í þættinum ekki gera orð Sturlu Böðvarssonar að sínum en Sturla gagnrýndi Þorstein Pálsson harðlega nýverið fyrir að vera í samninganefndinni við Evrópusambandsins. Sagði Bjarni að ekki ætti að fara í viðræður við ESB þegar ljóst væri að þjóðin vildi ekki ganga í sambandið.

Katrín sagði að hún hafi greitt atkvæði með tillögunni í sumar þar sem hún teldi að þjóðin eigi að greiða atkvæði um aðild að ESB.

Hún segist hafa mestar áhyggjur af atvinnuleysinu og segir nauðsynlegt að komast upp úr því með fjölbreyttu atvinnulífi. 

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að vaxtastefna Seðlabankans sé að hafa gríðarleg áhrif á gengi krónunnar en staða krónunnar var meðal annars til umræðu hjá þingmönnunum í þættinum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert