Reiknað er með að framleiðsla í fiskeldi tvöfaldist hér á landi á næstu sex árum og að eldið skili þá um 10 þúsund tonnum af fiski. Áfram er reiknað með að bleikjan verði mikilvægasti eldisfiskurinn.
Landssamband fiskeldisstöðva hefur gefið út skýrslu þar sem gerð er grein fyrir stöðu fiskeldis á Íslandi, framtíðarhorfum og tillögum í rannsóknar- og þróunarstarfi.
Þar kemur fram að framleiðsla hefur dregist saman á síðustu árum vegna þess hversu illa hefur gengið í laxeldinu og margar stórar stöðvar hætt.
Áætlað er að framleidd verði um 5000 tonn í ár, svipað magn og á síðasta ári. Meira en helmingur er bleikja.
Skýrsluhöfundar segja að aukning sé í kortunum og spá því að framleiðsla í fiskeldis verði tvöfalt meiri eftir sex ár. Miða þeir við áform þeirra fyrirtækja sem nú eru í rekstri. Taka þeir þó fram að mikil óvissa ríki um þessa spá þar sem ákvörðun um að koma á fót einni eða fleiri stórum fiskeldisstöðvum til viðbótar geti aukið framleiðsluáformin umtalsvert.
Bleikjan mikilvægust
Áfram er reiknað með að bleikjan verði mikilvægasti eldisfiskurinn. Því er spáð að framleiðslan aukist í 3500 tonn á næsta ári og 5 til 6 þúsund tonn árið 2015.
Eftir mikinn samdrátt í laxeldi er gert ráð fyrir aukningu og framleiðslan verði komin í 2000 tonn árið 2012. Jafnframt að útflutningur á laxahrognum verði meiri en 50 milljónir hrogna á ári hverju og hugsanlega einnig á laxaseiðum, eins og verið hefur undanfarin ár.
Þorskeldið hefur skilað um 1500 tonnum á ári og reiknað er með hægri aukningu á meðan verið að þróa eldið. Því er þó spáð að framleiðslan verði 2500 tonn eftir sex ár. Ef vel tekst til við þróunarvinnuna er líkum að því leitt að mikil aukning geti orðið í þorskeldi eftir 2015.
Áfram er gert ráð fyrir lítilli framleiðslu á lúðu til matar en aukningu á útflutningi á seiðum. Reiknað er með lítilsháttar aukningu í sandhverfueldi. Eldi á regnbogasilungi hefur verið í lægð en nú eru áform um að framleiðslan komist í um 1000 tonn innan örfárra ára.
Skýrsluna má skoða hér. Hún verður formlega kynnt á fundi í húsnæði Hafrannsóknarstofnunarinnar á morgun, kl. 11 til 12.