Fréttaskýring: Velja ekki sóknarprest

Biskup á nýafstöðnu kirkjuþingi
Biskup á nýafstöðnu kirkjuþingi mbl.is/Ómar
 Kirkjuþing samþykkti með eins atkvæðis mun gildistöku sameiningar Hraungerðis- og Selfossprestakalls sem hefur í för með sér að Kristinn Á. Friðfinnsson Hraungerðisprestur verður sóknarprestur í sameinaði sókn. Þetta var gert í andstöðu við vilja sóknarnefndarinnar á Selfossi sem hélt fram rétti sóknarbarna til að velja sér sóknarprest.

Selfossprestakall var klofið út úr Hraungerðisprestakalli 1991. Nú er mikill munur orðinn á íbúafjölda, hátt í 7.000 á Selfossi og rúmlega 400 í þremur sóknum sem heyra undir prestinn í Hraungerði sem raunar býr á Selfossi.

Til umræðu hefur verið að sameina prestaköllin. Sóknarnefndin lagðist hins vegar gegn því að það yrði gert nú. Venja er að þegar prestaköll eru sameinuð komi það til framkvæmda þegar annar presturinn hættir. Nú háttar svo til á þessu svæði að Óskar H. Óskarsson er ráðinn tímabundið sem prestur á Selfossi í afleysingum. Kristinn verður því sóknarprestur í sameinuðu prestakalli.

11 atkvæði gegn 10

Sóknarnefndin lagði áherslu á að söfnuðurinn fengi að velja sér sóknarprest og voru tilbúin drög að auglýsingu um það. Kirkjan vildi ekki valda meiri óróa í sókninni en orðið er og lögðu biskuparnir ekki til sameiningu á Selfossi í tillögu sinni um sameiningu prestakalla og prófastsdæma vítt og breitt um landið á kirkjuþingi. Eigi að síður lagði séra Kristján Björnsson í Vestmannaeyjum til sameiningu. Var tillaga hans samþykkt í löggjafarnefnd þingsins með því ákvæði að hún tæki ekki gildi fyrr en næsta sumar. Það hefði þýtt að auglýst yrði eftir sóknarpresti nú og sameiningin kæmi í raun ekki til framkvæmda fyrr en annar hvor presturinn hætti. Við lokaafgreiðslu málsins í fyrrakvöld var þetta gildistökuákvæði fellt með 11 atkvæðum gegn 10 en 29 fulltrúar sátu þingið. Það þýðir að séra Kristinn verður sóknarprestur en auglýst verður eftir presti með honum.

„Eins og rassskellur“

„Við töldum að búið hefði verið að ganga frá málinu, að við myndum fá að velja okkur prest og síðan yrði unnið að sameiningunni í rólegheitum. Þessi niðurstaða er eins og rassskellur fyrir okkur sem höfum verið að vinna að málinu,“ segir Eysteinn Ó. Jónasson, formaður sóknarnefndar á Selfossi.

Eðlismunur er á embættum sóknarprests og prests. Séra Óskar íhugaði að sækja um sóknarprestsembættið. Nú liggur fyrir að hann hverfur til sinna fyrri starfa sem prestur við Akureyrarkirkju þegar afleysingu hans á Selfossi lýkur. Hann staðfesti það í samtali við Morgunblaðið.

Séra Kristinn sótti um prestsembættið á Selfossi þegar Gunnar Björnsson var ráðinn. Hann kvaðst ekki óttast úlfúð út af sameiningunni. Bendir Kristinn á að hann búi á Selfossi og hluti af hans vinnutíma hafi verið í þágu sóknarbarna þar. „Það var um það að ræða að sameining færi fram núna eða að Selfoss fengi ekki annan prest fyrr en eftir fjórtán eða fimmtán ár. Ég hlakka til samstarfsins við þetta góða fólk,“ segir hann.

Selfosskirkja
Selfosskirkja Mbl.is/ Kristinn
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert