Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Hjá varðstjóra voru skráð 107 mál á næturvaktinni, misstór en flestum þurftu lögreglumenn að bregðast við.
Töluverð ölvun var í bænum. Menn voru valtir á fótunum, duttu og misstu meðvitund og eitthvað um líkamsárásir þótt engin virtist vera stórvægileg. Það voru því töluverðar annir hjá sjúkraflutningamönnum.
Slökkviliðið var kallað út vegna elds í ruslagámi við Kringlukrána klukkan hálf þrjú í nótt. Ekki urðu stórvægilegar skemmdir.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók þrjá ökumenn grunaða um ölvun við akstur á næturvaktinni og tveir bættust í þann hóp nú í morgunsárið.