Sagt er frá því í Kristeligt dagblad í Danmörku að samkvæmt könnunum álíti 54% Íslendinga ,,líklegt eða hugsanlegt" að álfar séu til. Byggð hafi verið smáhýsi handa álfum í grennd við Strandarkirkju. Vitnað er í Karl Sigurbjörnsson biskup sem segir þetta skaðlaust og ,,hluta af þjóðarsálinni". Rifjað er upp að stundum hafi vegir verið færðir eða hætt við þá af ótta við að styggja álfabyggðir.
,,Þetta er skaðlaust og kirkjan þarf alls ekki að taka afstöðu til þess," segir Karl Sigurbjörnsson. ,,Þetta stangast ekki á við guðspjöllin." Hann vitnar í það að amma sín, sem hafi verið sannkristin kona, hafi sagt sér sögur af huldufólki, að gæta þyrfti þess að fara varlega í grennd við steina þar sem það ætti heima.