Í dag er Dagur íslenskrar tungu en hann er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Í skólum landsins og á vegum margra annarra stofnana og samtaka verður dagsins minnst með einhverju móti.
Stóra upplestrarkeppnin í grunnskólum landsins hefst formlega á degi íslenskrar tungu.
Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálamálaráðherra heimsækir skóla og menningarstofnanir á Akureyri í dag. Hún fór í morgun í leikskólann Kiðagil, Síðuskóla, Brekkuskóla og Naustaskóla. Um hádegisbil heimsækir hún Amtsbókasafnið o.fl. og verður síðan gestur íslenskuhátíðar, kl. 14-15.30, í Háskólanum á Akureyri á vegum framhaldsskóla og Háskólans. Loks verður hátíðardagskrá, öllum opin, í Ketilhúsinu kl. 16-17.
Á hátíðardagskránni afhendir ráðherra Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og tvær sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu.