Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, skrifaði í dag undir samkomulag við Benitu Ferrero-Waldner, sem fer með utanríkismál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, um stofnun sendiskrifstofu ESB í Reykjavik sem taka mun til starfa í upphafi næsta árs.
Össur sat einnig í dag fundi EES ráðsins í Brussel og tók þátt í fundum með þingmannanefnd EFTA. Fundi EES ráðsins sitja utanríkisráðherrar Íslands, Noregs og Liechtenstein ásamt utanríkisráðherra Svíþjóðar, sem fer með formennsku ESB og fulltrúum Spánar, sem tekur við af Svíþjóð um áramót, framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Ráðherraráðsins.
Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu ræddi Össur um framtíð EES samningsins og lýsti því að samningurinn hefði í flestum atriðum þjónað Íslendingum vel. Þó væri ljóst að ekki væri hægt að ná stöðugleika í gjaldmiðilsmálum eingöngu á grundvelli EES samningsins, til þess yrði að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evru í fyllingu tímans.
Þá undirstrikaði Össur mikilvægi þess að ríki heims næðu bindandi samkomulagi um takmörkun gróðurhúsalofttegunda á leiðtogafundinum í Kaupmannahöfn í næsta mánuði og lagði áherslu á hlutverk endurnýjanlegra orkugjafa til þess. Íslendingar hefðu náð því að 80% orkunnar kæmi frá endurnýjanlegum orkugjöfum og Íslendingar væru viljugir til að deila reynslu sinni og þekkingu af nýtingu jarðhita með öðrum þjóðum.