Með Nígeríusvindl á prjónunum

Ekki er allt sem sýnist.
Ekki er allt sem sýnist.

Frakkarnir tveir sem snúið var við við komuna hingað til lands þann 10. nóvember eru taldir hafa ætlað að staldra hér stutt við og svíkja fé af fólki með vélabrögðum.

Guðmundur Baldursson, lögreglufulltrúi á Suðurnesjum, segir menn sífellt reyna nýjar leiðir í svikum af þessu tagi en þau eru gjarna kennd við Nígeríu í daglegu tali. Frakkarnir höfðu meðferðis mikið magn hvítra pappírsseðla, sömu stærðar og peningaseðlar. Bendir það til þess að þeir hafi ætlað sér að narra fólk til að halda að þarna væru á ferðinni dulbúnir peningaseðlar. Guðmundur segir að eitt af nýrri afbrigðum nígerísku svikamyllnanna felist í að segja auða pappírsseðla með vatnsmerki vera peningaseðla sem þurfi að verka á vissan hátt svo seðillinn taki á sig sína réttu mynd.

„Þeir setja þá í umslag úr álpappír og sprauta „töfravökva“ í það, setja það í frysti og taka svo eftir einhvern tíma út. Þá eru þeir orðnir að peningaseðlum,“ segir Guðmundur. Er þessari sýningu ætlað að sannfæra mögulega kaupendur. Þarna mun þó ekki vera á ferðinni svarti galdur eða efnafræðiundur heldur er einfaldlega annað umslag í frystinum, fullt af peningum. „Töfravökvinn“ ku vera lítið annað en vatnslausn en ásamt hinum auðu seðlum er hann falur auðtrúa fólki sem maka vill krókinn.

„Þessu fylgir svo saga sem er oftast nær eitthvað á þá leið að Bandaríkjamenn hafi ætlað að senda milljóna dollara aðstoð til Afríkuríkja en til að hægt væri að flytja þetta á öruggan hátt hafi þurft að hreinsa allt af seðlunum,“ segir Guðmundur. „Ef fólk fellur svo fyrir þessu og kaupir kannski ferðatösku af seðlunum þjóta svikararnir bara út á flugvöll.“

Seðlasvindl hefur virkað hér

Fyrir um tveimur árum tókst svikurum að blekkja Íslendinga með svokölluðu „svörtuseðlasvindli“. Það felst í því að færðir eru fram bunkar af pappír, sömu stærðar og peningaseðlar, í bland við alvöru peningaseðla sem hafa verið litaðir biksvartir. Svindlararnir sýna síðan væntanlegum fórnarlömbum hvernig megi hreinsa svarta litinn af en velja auðvitað aðeins raunverulega seðla í sýnikennsluna. Síðan er fórnarlömbunum talin trú um að þau geti þvegið afganginn af „seðlunum“ með sama hætti. Gangi svikamyllan upp eru svindlararnir á bak og burt þegar kaupandinn áttar sig á að ekki er um peninga að ræða.

„Þeir voru gripnir hérna í flugstöðinni, á hlaupum með fulla vasa af peningum,“ segir Guðmundur um málið sem kom upp hér. Kveður hann fjárhæðina í því máli hafa hlaupið á milljónum. Mál af þessu tagi koma upp öðru hverju.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert