Nýir skattar inni í myndinni

Möguleiki er á að samsköttun hjóna í hærri skattþrepum verði meðal breytinga á skattkerfinu. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra staðfesti í samtali við Morgunblaðið að slíkt hefði komið til umræðu innan fjármálaráðuneytisins.

Þingflokkur Vinstri grænna fundaði í gær um fyrirhugaðar skattahækkanir. Fram kom á fundinum að samhugur ríkti í ríkisstjórnarflokkunum um að þrepaskattkerfi skyldi fest í sessi, og nú væri fyrst og fremst rætt um prósentur og viðmiðunarmörk í þeim efnum. „Upp á síðkastið höfum við verið að skoða jaðaráhrif og hvernig þau eru fyrir einstaka tekjuhópa, og gagnvart vaxtabótum og barnabótum,“ segir Steingrímur.

Fram hefur komið að 0,8% íslenskra fjölskyldna eigi 12% framtalinna eigna. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins telur ríkisstjórnin þennan hóp meðal þeirra sem geti staðið undir mun hærri skattgreiðslum. „Við höfum séð upplýsingar frá ríkisskattstjóra sem staðfesta auðvitað undangengna eignatilfærslu og misskiptingu eigna í samfélaginu. Sú misskipting hefur aukist gríðarlega, og því er eðlilegt að þessir hlutir séu skoðaðir. Við höfum litið til stighækkandi fjármagnstekjuskatts í þessu samhengi,“ segir Steingrímur.

Samræmd skattlagning lokatakmark VG

Vilji vinstri grænna stendur til þess að skattlagning launatekna, fjármagnstekna og eignatekna verði að endingu samræmd. Það er að segja, sama skattprósenta gildi fyrir ofangreinda skattstofna. Telja vinstri grænir þetta ákjósanlegasta fyrirkomulagið, þó ólíklegt sé að breytingar í þessa veru nái fram að ganga með skattahækkunum nú. thg@mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert