Á ársfundi Norðaustur Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar (NEAFC) var staðfestur samningur strandríkja um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og kolmunnastofninum sem gerður var í október síðastliðnum. Einnig var gengið frá samningi um veiðar á karfa í Síldarsmugunni. Þar var aflamark lækkað milli ára úr 14.500 tonnum í 8.600 tonn. Ísland ásamt Noregi sat hjá við þá samþykkt enda hafa ríkin undanfarin ár stutt bann við veiðum í samræmi við ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES).
Noregur, Færeyjar og Evrópusambandið hafa ekki enn leyst, sín á milli, þá deilu sem uppi er um stjórnun makrílveiða og var það mál ekki tekið til afgreiðslu á ársfundinum. Þessi ríki munu hins vegar hittast að nýju í seinnihluta nóvembermánaðar til að leysa ágreining þann sem er upp á milli þeirra. Íslandi hefur ekki verið boðið til þess fundar. Á ársfundinum ýtrekaði Ísland enn þá staðreynd að Ísland væri strandríki að makrílnum og skoraði á hin ríkin að viðurkenna það, að því er segir í tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu.
„Síðastliðið vor kom út skýrsla frá Alþjóða hafrannsóknaráðinu um stofngerð úthafskarfa. Var þar staðfest að tvo stofna er að finna á Reykjaneshrygg, efri og neðri stofn. Þessu hafa íslenskir fiskifræðingar ásamt erlendum vísindamönnum haldið fram um margra ára skeið.
Rússnesk stjórnvöld mótmæltu niðurstöðu ráðsins og halda því fram að einungis sé um einn stofn að ræða. Í vor hófust viðræður strandríkja við aðrar aðildarþjóðir NEAFC um úthafskarfa og í haust var einnig rætt við sendinefnd Rússlands um afstöðu þeirra í málinu.
Í ljósi mikilla veiða rússneskra skipa á Reykjaneshrygg var lögð áhersla á að ná fram málamiðlun fyrir árið 2010 til að koma í veg fyrir stjórnlausar veiðar á svæðinu á næstu vertíð, þar sem ljóst var að rússnesk yfirvöld gætu ekki fallist á aðskilda veiðistjórnun efri og neðri stofns úthafskarfa. Samningurinn um stjórnun veiða fyrir árið 2010 byggist að mestu á samþykkt þeirri sem gerð var fyrir árið 2009."