Samningur við Josefsson rennur út um áramót

Mats Josefsson.
Mats Josefsson.

Fjármálaráðherra segir, að samningur íslenskra stjórnvalda við sænska ráðgjafann Mats Josefsson renni út í lok ársins. Ráðherra svaraði því ekki á Alþingi í dag hvort til stæði að endurnýja samninginn.

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, spurði Steingrím að því í fyrirspurnartíma í dag hvort búast mætti við, að ríkisstjórnin haldi áfram að þiggja ráð frá Josefsson, m.a. í ljósi þeirrar gagnrýni, sem Josefsson kom fram með á stjórnvöld í síðustu viku.

Steingrímur J. Sigfússon svaraði að hann vissi ekki hvort tekin hefði verið ákvörðun um framhaldið eftir að núverandi samningur við Josefsson rennur út. 

„Hann kemur nú sjaldnar hingað og gleður okkur með nærveru sinni en áður var, það er að segja hann hefur ráðist í fleiri stórverkefni, meðal annars á Balkanskaganum. Ég tel að  það hafi verið mjög gagnlegt og mjög gott að hafa Mats Josefsson. Hann hefur veitt aðhald og hann hefur verið ákveðin svipa á lofti þótt ég skrifi ekki þar með undir allt sem hann hefur sagt. Hann er kappsfullur maður og tekur stundum stórt upp í sig," sagði Steingrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert