Íslendingar geta verið mjög sáttir við þá niðurstöðu sem er komin í Icesave-málið og hún er til þess fallin að hægt sé að leggja það leiðindamál til hliðar fullvissu um að það sé að baki. Þetta sagði Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra á Alþingi í dag.
Bjarni Benediktsson spurði Árna Pál út í orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þess efnis að Íslendingar hafi gengið til samninga um Icesave-málið eins og sakamenn og að viðsemjendurnir, Bretar og Hollendingar, hafi ekki lagt neitt af mörkum til þess að ásættanleg niðurstaða næðist fyrir alla aðila. Sagði Bjarni augljóst að Ingibjörg Sólrún, sem var utanríkisráðherra þegar málið kom fyrst upp, væri mjög ósátt með niðurstöðu þess.
,,Ég er sammála henni um að ekki var nægilega gengið úr skugga um það upphaflega, að Brusselviðmiðin giltu og um hina sérstöku stöðu Íslands," sagði Árni Páll. Hann tók hins vegar fram að þau atriði hafi eftir það náðst fram í því ferli sem svo fór í hönd. ,,Við stöndum eftir með mun sterkari réttarstöðu," sagði Árni Páll.
,,Við höfum náð viðurkenningu á því að greiðslur á þessum skuldbindingum verði ekki þannig að þær verði okkur sem þjóð um megn að standa undir og við höfum tryggt að nágrannaríkin viðurkenna tilvist vafa um þá skuldbindingu sem að baki liggur," sagði Árni Páll. Sagði hann að af þessu væri mikill pólitískur ávinningur, sem ekki hefði legið fyrir síðasta haust.