Strauss-Kahn skautaði létt yfir

Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra. Eggert/Eggert

„Ég vil ekki halda því fram að Strauss-Kahn hafi farið með ósannindi í þessu bréfi en mér fannst hann skauta nokkuð létt yfir þessi mál," sagði Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra á Alþingi í dag. Gylfi var að svara fyrirspurn um ummæli Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um að sjóðurinn hafi aldrei sett það sem formlegt skilyrði fyrir lánveitingum til Íslands að Icesave-málið yrði klárað.

„Hann verður að svara fyrir það sjálfur," sagði Gylfi um hin meintu ósannindi Strauss-Kahns. Gylfi sagði að legið hefur fyrir mánuðum saman, efnislega, að Íslendingar þyrftu að klára Icesave-málið til að fá lán frá AGS. Það væri svo annað mál hver hefði formlega sett það skilyrði, AGS eða aðrir lánveitendur, svo sem Norðurlöndin. Báðir aðilar hafa sagst vera að bíða eftir hinum, til að geta lánað Íslendingum gjaldeyri.

Fyrirspyrjandinn, Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að þótt Gylfi hefði tekið kurteislega til orða væri ekki hægt að skilja hann öðruvísi en að hann teldi Strauss-Kahn hafa sagt ósatt um þetta atriði.

Sagði Birgir að lánveitingin hefði verið notuð sem vöndur til þess að koma Icesave-málinu hratt í gegnum þingið. Í seinna andsvari sínu sagði Gylfi að hann gæti ekki gefið út sannleiksvottorð fyrir alla þá sem hafa tjáð sig um Icesave-málið. Hins vegar væri fjarri lagi að Icesave hefði farið hratt í gegnum þingið, þar sem margir hillumetrar hefðu orðið til í meðferð þess á þeim þrettán mánuðum sem liðnir eru frá því málið kom upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert