Þorsteinn frá Hamri hlýtur verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í ár en verðlaunin voru veitt í Ketilhúsinu á Akureyri í dag. Auk þess voru veittar tvær sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskrar tungu og hlutu þær Þórbergssetrið á Hala í Suðursveit og Baggalútur.
Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra veitti Þorsteini verðlaunin. Í rökstuðningi ráðgjafarrefndar verðlaunanna segir m.a. að Þorsteinn sé meðal fremstu skálda Íslands og hann hafi glímt við gamlan og nýjan sið í skáldskap frá unga aldri.
Þorsteinn frá Hamri hlaut í verðlaun eina milljón króna og ritið Íslenska tungu sem er í þremur bindum. Einnig fengu fulltrúar Þórbergsseturs og Baggalúts viðurkenningar eins og áður sagði, listaverk eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur.
Vísað er til þess í umsögn ráðgjafarnefndar um Þórbergssetur, að það sé verðugur minnisvarði um einn af mestu meisturum íslenskrar tungu. Heimamenn hafi reist Þórbergssetur með stuðningi frá ríki og sveit og þeir séu ávallt reiðubúnir að ræða við gesti og veita fræðslu og upplýsingar um umhverfi, náttúru og mannlíf.
Um Baggalút segir, að það sé nokkuð sérstök menningarstofnun, annars vegar á netinu og hins vegar sem tónlistarhópur. Allt sé þetta í gamansömum tón en jafnan fylgi nokkur broddur gagnrýni og oft séu skilaboðin tvíræð.
„Viðgangur tungunnar á þessum sviðum er afar mikilvægur og þótt vissulega sé þar misjafn sauður í mörgu fé eru á þessum sviðum margvísleg sóknarfæri fyrir íslenska tungu og menningu. Baggalútar hafa alla sína texta á íslensku og leika sér með málið á skemmtilegan hátt. Það er líka þakkarvert þegar ungir hæfileikamenn, sem hafa gott vald á máli, skapa frjóan umræðuheim á netinu þar sem andinn leikur lausum hala, án of mikillar alvöru," segir í umsögninni.
Í ráðgjafarnefnd um verðlaun og viðurkenningar á degi íslenskrar
tungu sitja Kristín Helga Gunnarsdóttir, Kristján Árnason og Þórarinn
Eldjárn.