Beðið færis til þess að hækka vöruverðið

Þverrandi trú á því að gengi íslensku krónunnar muni styrkjast umtalsvert á næstu misserum gerir það að verkum að innflytjendur og smásalar bíða færis til þess að hækka vöruverð til samræmis við þróunina.

Þetta er mat Snorra Jakobssonar, sérfræðings hjá rannsóknarfyrirtækinu IFS-greiningu. IFS spáir 8,38% verðbólgu á ársgrundvelli í nóvember en Snorri segir verðbólgu næstu mánaða háða töluverðri óvissu vegna stöðu krónunnar og svo áhrifa skattahækkunaráforma ríkistjórnarinnar.

Verðbólgumæling hagstofunnar í október benti til þess að menn hefðu vanmetið áhrif gengislækkunar krónunnar undanfarið á verðlag. Snorri segir ýmislegt gefa ástæðu til þess að ætla að gengisþróunin muni hafa frekari áhrif á verðlag. Ekki síst vegna þess að væntingar manna um styrkingu krónunnar fara nú þverrandi og þar með aukast líkurnar á því að menn fari að velta breytingunum út í verðlagið. Viðbúið sé að jólavarningurinn hafi verið keyptur til landsins á lægra gengi en þær vörur sem voru fyrir í verslunum og það mun vafalaust leiða til einhverra verðhækkana í desember.

Verðhækkanir vegna vsk.

Í framhaldinu er ekki útilokað að verslunarmenn muni nota tækifærið þegar hækkanir á virðisaukaskatti taka gildi um áramótin og hækka verð á innfluttum varningi frekar til þess að bregðast við gengisþróuninni. Þrátt fyrir að IFS-greining geri enn ráð fyrir að verðbólga muni ganga niður fljótt á næsta ári telja sérfræðingar fyrirtækisins að meiri hætta sé á því en áður að hún verði þaulsætnari en vonir hafa staðið til.

Sjá hefur mátt vísbendingar á skuldabréfamarkaði um að verðbólguvæntingar hafi breyst til hins verra á undanförnum mánuðum. Nýjasta verðbólguspá Seðlabankans, sem birtist í Peningamálum á dögunum, endurspeglar þessa þróun. Í henni kemur fram að verðbólga muni hjaðna hægar en spáð hefur verið í fyrri verðbólguspám bankans. Þannig gerir bankinn ráð fyrir að verðbólgan muni að meðaltali mælast 8% fyrstu sex mánuði næsta árs en muni svo loks lækka niður í 3% á seinni hluta ársins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert