Borgarahreyfingin lýsir furðu sinni og miklum vonbrigðum með þá fyrirætlun forsætisnefndar Alþingis að ætla níu manna pólitískt skipaðri þingnefnd að ákveða einróma hvernig unnið verður úr niðurstöðum rannsóknarnefndar um bankahrunið. Þetta kemur fram á vef Borgarahreyfingarinnar.
„Það kann ekki góðri lukku að stýra að fela alþingismönnum sjálfum það vandasama hlutverk að meta ábyrgð flokksfélaga sinna, t.d. hvort ráðherrar í fyrri ríkisstjórnum hafi með aðgerðum sínum eða andvaraleysi gerst brotlegir við lög. Ólíklegt verður að teljast að samhljóða niðurstaða nefndarinnar skili réttlátri málsmeðferð," að því er fram kemur á vef BH.