Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis segir í áliti Icesave-frumvarp fjármálaráðherra, að ekki sé hætta á greiðsluþroti þjóðarbúsins af völdum Icesave-skuldbindinganna.
Í áliti þeirra Lilju Mósesdóttur og Ögmundar Jónassonar, þingmanna VG í efnahags- og skattanefnd, sem fylgir með meirihlutaáliti fjárlaganefndar, segir hins vegar að mikil óvissa ríki varðandi endurheimtur á eignasafni Landsbanka Íslands og því sé vandkvæðum bundið að áætla hver raunveruleg skuldbinding vegna Icesave verður. Ef miðað sé við 90% endurheimtur, þá verði núvirt hrein skuldbinding vegna Icesave um 14% af vergri landsframleiðslu á þessu ári en hlutfallið fari í 30% sé gert ráð fyrir 50% endurheimtum.
Þingmennirnir tveir segja líkur á því, að mikil skuldsetning hins opinbera hér á landi muni draga úr hagvexti á næstu árum. Vaxi hagkerfið ekki hraðar en sem nemur vexti skuldanna sé skuldsetning þjóðarbúsins ekki lengur sjálfbær.
„Ósjálfbærni skulda mun óhjákvæmilega leiða til greiðslufalls, en þá þurfa íslensk stjórnvöld að biðja kröfuhafa um hagstæðari endurfjármögnun á skuldum hins opinbera, þ.e. með lægri vöxtum og lengingu lánstímans. Í þessu felst mikil áhætta því að erfitt er geta sér til um viðbrögð kröfuhafa við slíkri beiðni," segir í álitinu. Þar segir einnig, að draga þurfi verulega úr einkaneyslu og samneyslu á næstu árum til að þjóðin geti staðið undir greiðslubyrðinni.
Álit meirihluta fjárlaganefndar Alþingis