Nokkur samtök hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem lýst er vanþóknun á ,,ómálefnalegri auglýsingaherferð" fyrirtækja á Suðurnesjum gegn ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínur.
,,Álver í Helguvík með allt að 360 þúsund tonna ársframleiðslu með tilheyrandi orkuöflun og umhverfisáhrifum er ekki einkamál Suðurnesjamanna," segir í yfirlýsingunni. ,,Ekki er útséð með að hægt verði að útvega alla þá orku sem fyrirtækið telur sig þurfa, auk þess sem orkuþörf Norðuráls í Helguvík hefur verið ranglega metin í opinberum gögnum."
Sagt er m.a. að fyrirhugað álver myndi taka til sín nær alla háhitaorku sem fyrirséð er að aflað verði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, auk virkjana í neðri Þjórsá. Undir yfirlýsinguna rita eftirtaldir aðilar:
Náttúruverndarsamtök Vestfjarða
Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST)
SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi
Sól á Suðurnesjum
Sól á Suðurlandi
Framtíðarlandið
Sól í Straumi
Náttúruverndarsamtök Suðurlands
Náttúruverndarsamtök Íslands