Hollensk stjórnvöld hafa sent svar við bréfi, sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sendi í lok ágúst vegna Icesave-málsins.
Í bréfinu bauð Jóhanna forsætisráðherra Hollands, Jan Peter Balkenende, að koma til fundar við hann teldi hann það gagnlegt.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins í hollenska stjórnkerfinu var bréfið sent á fimmtudag, 12. nóvember.
Ekki fékkst upp gefið hvert efni bréfsins væri, en fram kom að þar væru veittar útskýringar á því hvers vegna dregist hefði að svara bréfi Jóhönnu í tvo og hálfan mánuð. Jóhanna sendi bréf sitt 28. ágúst og fékk Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, samhljóða bréf á sama tíma.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fengust ekki upplýsingar um innihald bréfsins hjá íslenska forsætisráðuneytinu í gær.