Opinbera rannsókn á hver var í stjórn

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði á Alþingi í dag, að gera verði opinbera rannsókn á því sem allra fyrst hverjir hefðu verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum frá árinu 2007 og fram á þetta ár.

„Ég var í þessari ríkisstjórn. Ég stóð í þeirri meiningu að Samfylkingin hefði verið þarna og ég sá fullt af fólki, sem nú er í ráðherrastólum, á fundum með okkur reglulega. Þetta fólk kannast hins vegar ekkert við þessa dvöl," sagði Guðlaugur Þór.

Hann sagði að þetta fólk og annað, sem bar Samfylkingarmerki, hafi aldrei varað við nokkurri kreppu. Fólkið hefði einnig gengið um fyrir kosningar og sagt, að góðærið væri EES-samningnum að þakka, „en við erum reyndar núna að taka á þessu Icesave út af þeim ágæta samningi," sagði Guðlaugur Þór.  

Tilefni ummæla Guðlaugs Þórs var ræða Róberts Marshall, þingmanns Samfylkingarinnar, í umræðu um störf þingsins í dag. Þar sagði Róbert m.a. að stjórnarandstaðan hefði engu gleymt og ekkert lært og spurði hvar uppgjör Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins væri við íslenska efnahagsundrið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka