Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, segir að margir hér á landi hafi orðið vitni að því síðdegis á laugardag þegar loftsteinn kom inn í gufuhvolfið og sprakk. Vill Þorsteinn gjarnan ná sambandi við fólk, sem sá þetta svo hann geti reiknað út feril loftsteinsins.
Fram kom á mbl.is á laugardagskvöld að fólk sem statt var á Suðurlandsvegi við Landvegamót um klukkan 18 þann dag sá stóra skæra ljóskúlu á austurhimninum með hala á eftir sér. Skömmu seinna sprakk hún í fjóra eða fimm hluta og eldglæringar fylgdu með.
Þorsteinn segir að loftsteinninn hafi einnig sést víða á Snæfellsnesi og á Norðurlandi. Biður hann þá, sem hafa séð fyrirbærið að senda honum línu í tölvupóstfangið halo@raunvis.hi.is
Þorsteinn hefur tekið saman yfirlit yfir loftsteina, sem sést hafa hér á landi frá árinu 1941.