Skattatillögur kynntar á morgun

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. mbl.is/Jón Pétur

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði eftir ríkisstjórnarfund í dag, að skattatillögur ríkisstjórnarinnar yrðu væntanlega kynntar í heild síðdegis á morgun.

Steingrímur vildi ekki upplýsa hvað í þeim fælist en sagði að samkomulag væri orðið milli stjórnarflokkanna um málið. Hann sagði ekki útilokað, að fyrstu frumvörp um skattalagabreytingar verði lögð fyrir þingið í þessari viku.

Fyrir liggur, að tekinn verður upp þriggja þrepa tekjuskattur. Hafa ýmsar útfærslur á slíku verið ræddar að undanförnu en fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins í gær, að væntanlega yrði skattkerfið að mestu óbreytt fyrir þá sem hafa tekjur undir 600 til 650.000 krónur á mánuði. Þó verði persónuafsláttur hækkaður, til að verja kjör þeirra sem lægstu launin hafa. Þá væri rætt um, að setja á tvöfaldan hátekjuskatt þar sem eitt þrep leggist á laun yfir 600 til 650.000 krónur og annað þrep taki við í kring um 900.000 krónur á mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert