Staðfestir kyrrsetningu

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. mbl.is/Golli

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, staðfestir að embættið hafi krafist kyrrsetningar á eignum í fyrsta sinn í tengslum við rannsókn á bankahruninu.Hann segir rannsóknina miða ágætlega áfram en fjórir nýir starfsmenn bættust í hóp embættisins um síðustu mánaðamót. 

Ólafur segir að umrædd kyrrsetning sé nýlega komin til framkvæmda. Slíkum aðfarargerðum sé ætlað að tryggja að eignir séu til staðar komi til eignaupptöku. „Þetta er til þess að hefta ráðstöfun á eign sem er í hendi þess sem kyrrsetningin beinist að,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

Fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 að embættið hafi krafist kyrrsetningar á eignum Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, í tengslum við rannsókn á meintum innherjaviðskiptum Baldurs þegar hann seldi hlutabréf sín í Landsbankanum rétt fyrir hrun.

Ólafur segist ekki geta tjáð sig um einstök mál, sem séu á rannsóknarstigi.

Aðspurður segir Ólafur að rannsókninni miði ágætlega áfram. Mörg mál séu hins vegar þung og seinunnin. „Við erum hægt og rólega að ná upp meiri styrk. Við bættum við fjórum nýjum rannsökurum um síðustu mánaðamót,“ segir Ólafur. Alls starfa 23 starfsmenn hjá embætti sérstaks saksóknara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert