Svarbréf Balkenende til Jóhönnu birt

Jan Peter Balkenende, forsætisráðherra Hollands
Jan Peter Balkenende, forsætisráðherra Hollands Reuters

Forsætisráðuneytið hefur birt afrit af bréfi frá forsætisráðherra Hollands, Jan Peter Balkenende, til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra. Um er að ræða afrit af bréfinu sem sent var í tölvupósti en frumrit bréfsins er ekki komið í hendur forsætisráðherra.

Balkenende sendir svarbréfið þann 12. nóvember sl. en Jóhanna sendi bréf til hans þann 28. ágúst sl. vegna Icesave-málsins.

Í bréfinu bauð Jóhanna Balkenende, að koma til fundar við hann teldi hann það gagnlegt. Í svari sínu segir Balkenende að nokkrum dögum eftir að bréf Jóhönnu barst til hans hafi sendinefnd frá Íslandi, Hollandi og Bretlandi átt fund í Haag í Hollandi. Síðar hafi  verið fundað í Lundúnum og Reykjavík. Jafnframt hafi fulltrúar utanríkisráðuneytis og fjármálaráðuneytis ríkjanna rætt Icesave.

Balkenende lýsir bréfinu ánægju sinni með að þetta hafi skilað árangri og samkomulag náðst milli ríkjanna. Það eigi að leysa mál sem tengjast tryggingasjóði innistæðueigenda hvað varðar innistæður á reikningum Landsbankans. 

Það sé mikilvægt skref í að lokaniðurstaða náist milli ríkjanna. Hann segist vonast til þess að samkomulagið verði samþykkt af Alþingi. Það að þetta mál verði til lykta leyst muni gera ríkjunum kleift að ljúka þessu erfiða tímabili í samskiptum þjóðanna og styrkja þau góðu samskipti enn frekar, að því er fram kemur í bréfi Balkenende.

Ekkert svar við boði Jóhönnu við viðræðufundi þeirra um Icesave er að finna í bréfi Balkenende.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert