Þetta eru einar mestu kjarabætur sem íslenskir launamenn hafa fengið í lengri tíma. Það er svo aftur mitt persónulega vandamál hvernig ég fer að því að trúa því að eignarskatturinn sé farinn. Kannski einhvern tíma um áramót ef ég hugsa um það dag og nótt og ef ég klíp mig í handlegginn og trúi því að þetta sé ekki draumur fer ég að trúa því.“
Þetta sagði Pétur H. Blöndal alþingismaður þegar greidd voru atkvæði um að afnema eignarskatt. Ekki er útilokað að Pétur og aðrir andstæðingar skattsins eigi eftir að horfa fram á það á næstunni að þessi skattur verði lagður á að nýju því ríkisstjórnin er núna að skoða ýmsar leiðir til að afla ríkissjóði aukinna tekna með hærri sköttum. Eitt af því sem hefur komið til skoðunar er að leggja á eignarskatt.
Þeir sem börðust gegn eignarskatti töluðu gjarnan um hann sem ekknaskatt vegna þess að hann kæmi illa við ekkjur sem hefðu litlar tekjur en byggju í skuldlausum húsum.
Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi forsætisráðherra, hafði efasemdir um að rétt væri að leggja skattinn af þegar hann var ræddur á þingi haustið 2004. Hún vildi hins vegar breyta skattinum á þann veg að hækka frítekjumark.
„Staðreyndin er sú að um helmingur allrar eignarskattslækkunarinnar við niðurfellingu eignarskattsins fór til þeirra 25% framteljenda sem hæstar tekjur höfðu hvort sem litið er til einhleypra eða hjóna. Auk þess fór vel þriðjungur af tekjutapi ríkissjóðs vegna eignarskattslækkunarinnar í að fella niður eignarskatta á fyrirtæki eða tæpar 1.100 milljónir króna.“
Vinstri-grænir höfðu svipaða afstöðu til tillögu þáverandi ríkisstjórnar að leggja skattinn niður. Í nefndaráliti VG var bent á að þeir sem ættu meira en 100 milljónir í skuldlausa eign greiddu á þessum tíma 895 milljónir í eignarskatt.
Síðasta árið sem skatturinn var innheimtur greiddu 15.370 eldri borgarar, 67 ára og eldri, samtals um 652 milljónir króna.
í nágrannalöndum okkar?
Það eru ekki mörg lönd í heiminum sem leggja á eignarskatt. Hollendingar eru eina Evrópuþjóðin sem leggur á eignarskatt. Slíkur skattur var innheimtur á Bretlandi, en hann var afar óvinsæll og hefur að mestu verið lagður af. Eignarskattar eru hins vegar lagðir á í Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu.
Hver er munur á fasteignaskatti og eignarskatti?
Skattstofn fasteignaskatta er fermetrafjöldi húsnæðis, en eignarskattur tekur mið af eign skattgreiðanda í húsnæðinu að frádregnum skuldum.
Er langt síðan farið var að leggja á eignarskatt?
Fyrstu skattalög sem sett voru hér á landi voru sett árið 1096 að frumkvæði Gissurar Ísleifssonar Skálholtsbiskups, en hann fól í sér 10% skatt á árlega eignaaukningu. Þessi eignarskattur var kallaður tíund. Skatturinn skiptist í fjóra staði: fjórðungur fór til biskups, fjórðungur fór til þurfamanna, fjórðungur fór til kirkna og fjórðungur til presta.