Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs og nýr formaður Heimsýnar, sagði á opnum fundi VG á Sauðárkróki í gærkvöldi hann ætli sér að gera Samfylkingunni lífið leitt í málefnum Evrópusambandsins.
Fram kemur á vefnum feyki.is, að Ásmundur hafi á fundinum útskýrt hvernig hann ætlaði að taka á ESB málum ríkisstjórnarinnar þar sem hann væri orðinn formaður Heimsýnar.
„Við erum komin á þessa braut, að sækja um aðild að ESB en við megum ekki hengja haus," hefur Feykir eftir Ásmundi. Sagði hann að stoppa þurfi umsóknarferlið á næsta þrepi enda sé ekki sé meirihluti á Alþingi til að halda áfram með málið.
„Við slátrum ESB kosningunni," sagði Ásmundur og lofaði fundarmönnum því að hann muni ekki tipla í kringum Samfylkinguna í ESB málinu heldur þvert á móti að gera Samfylkingunni lífið leitt.