21% lána sjávarútvegsfyrirtækja fryst

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í dag að 21% útistandandi lána sjávarútvegsfyrirtækja hefði verið fryst í bankakerfinu. Þetta háa hlutfall kynni að koma á óvart því tekjur fyrirtækjanna eru að mestu leyti í erlendum gjaldmiðlum og fyrirtækin verða því ekki fyrir tjóni vegna falls krónunnar heldur þvert á móti.  

Gylfi sagði, að nokkrar ástæður kynnu að vera fyrir þessu. Misræmi milli gjaldmiðla í skuldum og útflutningstekjum um fyrirtækjanna kunni að hafa valdið hærri greiðslubyrði af lánunum umfram hækkun tekna. Þá geti verið, að bankar séu viljugri til að veita sjávarútvegsfyrirtækjum frystingu þar sem þeir meti þau fyrirtæki lífvænlegri en önnur. Loks væri mögulegt að fyrirtækin séu að reyna að hámarka gjaldeyristekjur sínar með því að geyma greiðslur vegna útflutnings og frysta lánin í von um hagstæðari gengisþróun. 

Gylfi var að svara fyrirspurn frá Eygló Harðardóttur, þingmanni Framsóknarflokks, um áhrif fyrningar aflaheimilda á  sjávarútvegsfyrirtæki en þar var m.a. spurt hver heildarupphæð skulda íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja væri við innlendar bankastofnanir. Gylfi vísaði til þess að í nýlegri skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika væru heildarskuldir fyrirtækja við innlendar lánastofnanir áætlaðar 4600 milljarðar króna og þar af skulduðu sjávarútvegsfyrirtækin 11,5% eða sem svarar til 530 milljarða króna.

Langstærstur hluti lánanna, eða 95%, er í erlendum gjaldmiðlum. Rúmlega helmingur lánanna er í lágvaxtagjaldmiðlum, svissneskum frönkum og jenum en fjórðungur í evrum. 40% útflutningstekna eru í evrum, fjórðungur í pundum og um 20% í dölum. 

Eygló sagði ljóst að stjórnvöld hefðu ekki reiknað til enda hvaða áhrif það hafi að innkalla aflaheimildir og endurúthluta þeim. Þetta geti leitt til þess að bankar yrðu að afskrifa há lán til sjávarútvegsfyrirtækja, sem tryggð væru með veðum í aflaheimildum.

Gylfi sagði, að hvaða leið sem farin yrði í löggjöf um stjórn fiskveiða, færi heildarafli á Íslandsmiðum ekki eftir því og þar með heildartekjur sjávarútvegs. Því væri ekki hægt að teikna fyrningarleið með horn og hala því fyrir lægi að sjávarútvegur verði blómlegur eftir sem áður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert