Áform ríkisstjórnarinnar um að innheimta orku-, auðlinda- og umhverfisskatta skili ríkissjóði 16 milljörðum króna í tekjur á næsta ári hafa verið endurskoðuð og er nú stefnt að því að þessir skattar skili 5,6 milljörðum króna. Tekjuskattur lögaðila hækkar úr 15% í 18% sem skilar ríkissjóði tekjum á árinu 2011.
Almennt tryggingagjald hækkar um 1,6% og er ætlunin að það skili 12 milljörðum króna á ári.
Ekki ferðaþjónustuskattur á næsta ári
Er þetta meðal annars gert í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Ekki er gert ráð fyrir að skattar er tengist ferðaþjónustu skili ríkissjóði nýjum tekjum á næsta ári en nefnd sú er unnið hefur að tillögugerð um þessa skattheimtu mun vinna áfram.
Gert er tillaga um tímabundinn, til þriggja ára, 12 aura raforkuskatt á hverja kWh sem skili um 1,8 milljarði króna að teknu tilliti til endurgreiðslna til garðyrkju og heimila á svokölluðum köldum svæðum.
Jafnframt verður gerður samningur við helstu stórnotendur á raforku um fyrirframgreiðslu á tekju skatti er færi ríkissjóði 1,2 milljarða króna tekjur á ári næstu þrjú ár.
Tekið verður upp kolefnisgjald sem gæti gefið ríkissjóði um 2,5 milljarða króna tekjur. Miðað yrði við gjald sem lagt er á fljótandi eldsneyti við innflutning er taki mið af verði á losunarheimildum innan Evrópusambandsins.
Unnið er að útfærslu tillagna er varða tekjuskatt hjá hlutafélögum og einkahlutafélögum. Þó svo að þessar breytingar muni aðallega skila sér til lengri tíma má reikna með því að tekjurnar verði 1-2 millajrðar króna á næsta ári.
Ýmsar aukatekur muni skila ríkissjóði allt að einum milljarði króna í viðbótartekjur á næsta ári en ekki liggur fyrir nánari útfærsla á þessum lið.