Á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur í gær var samþykkt bókun þar sem lýst er trausti á störf starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur. Fram kemur að bókunin hafi verið samþykkt vegna umræðu, sem orðið hafi um málsmeðferð stofnunarinnar.
„Í ljósi þeirrar fjölmiðlaumræðu, sem verið hefur að undanförnu um barnaverndarmál, vill Barnaverndarnefnd Reykjavíkur árétta að hún telur og treystir því að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur vinni ávallt af heilindum og samkvæmt sinni bestu sannfæringu að öllum þeim barnaverndarmálum sem inn á borð Barnaverndar Reykjavíkur koma.
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur harmar með hvaða hætti sumir fjölmiðlar hafa dregið nöfn einstakra starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur inn í umræðuna,“ segir í bókun Barnaverndarnefndar Reykjavíkur um Barnavernd Reykjavíkur.
Bókunin var samþykkt samhljóða.